139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[16:15]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf ósmekklegt að heyra þingmenn dylgja í ræðustóli og dylgjur hv. þm. Þorgerðar K. Gunnarsdóttur dæma sig sjálfar. Ég vil líka spyrja þingmanninn (Gripið fram í.) — eða bara varpa þeirri spurningu fram til umhugsunar — hvort þingmaðurinn telji sig yfirleitt hæfa til að fjalla um þetta mál, þ.e. skýrslu Ríkisendurskoðunar og skýrslu menntamálanefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um hennar eigin stjórnsýslu. Hún kveðst ætla að tjá sig um það mál í ræðustóli á eftir. Er hún hæf til að tjá sig um það mál og fjalla um það hér fyrst hún dregur í efa hæfi mitt til að fjalla um málefni sem lýtur að opinberri stjórnsýslu sem liggur fyrir formlega til umfjöllunar í þinginu? Þetta eru alveg ótrúlegar vangaveltur hjá þingmanninum.

Við erum kjörin á Alþingi Íslendinga til að taka á hverju því máli sem lagt er fyrir. Undan þeirri skyldu getur enginn vikist og undan þeirri skyldu dettur mér ekki í hug að víkjast. En það er með ólíkindum að draga í efa hæfi almennra þingmanna til að fjalla um slík mál, sem eru lögð formlega fram, en koma síðan í ræðustól og ræða allsendis óskyld mál þar sem menn eru í mjög litlum færum til að verjast dylgjum og óhróðri vegna þess að gögn liggja ekki fyrir og eru ekki uppi á borðum.