139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra, fyrir ræðuna. Ég vil spyrja um nokkur atriði. Sérstaklega vil ég þó draga fram þá ákvörðun sem hv. þingmaður tók sem menntamálaráðherra árið 2007 ásamt fjármálaráðherra um að afskrifa skuld Menntaskólans Hraðbrautar við ríkissjóð sem þá hafði fengið ofgreiddar 126 millj. kr. úr ríkissjóði. Hvaða heimildir höfðu ráðherrarnir í lögum til að fremja þennan gjörning sem mjög er gagnrýndur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, og að vonum?

Mér þótti hv. þingmaður líka tala tungum tveim um arðgreiðslurnar. Í fyrsta lagi viðurkenndi hún að þær hefðu verið afar óheppilegar en hins vegar gagnrýndi hún þá sem hér hafa talað í umræðunni á undan fyrir að gera þessar arðgreiðslur tortryggilegar. Ég fæ það ekki til að ganga upp í mínum huga hvernig menn geta annars vegar viðurkennt að þarna séu arðgreiðslur sem hafi ekki verið heppilegar en hins vegar leyfist mönnum ekki að gera þær tortryggilegar. Þær eru tortryggilegar vegna þess að þarna var kolrangt að málum staðið. Þarna er reksturinn hreinsaður að innan af fjármunum til að eigendur skólans geti komið út úr þessum rekstri með tugi milljóna og reyndar rúmlega það, líklega á annað hundrað milljónir króna ef við teljum saman arðgreiðslur til Hraðbrautar ehf. og til fyrirtækisins Faxafen í eigu sömu aðila sem hafði tekjur sínar af því að leigja Hraðbraut skólahúsnæði.

Svo frábið ég mér allar yfirlýsingar um að hér séu menn að keyra á einhverjum pólitískum hvötum. Ég hef þegar rakið það ítarlega í ræðu minni að við erum að fjalla um skýrslu sem fjallar um afar vafasama fjármálaumsýslu tiltekinna (Forseti hringir.) stjórnvalda og hér er ekki um neinn dóm að ræða yfir fyrirbærinu einkaskólar í menntakerfinu, síður en svo.