139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[16:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvaða hártoganir menn eru komnir upp með hér, að ég hafi einhvern tíma sagt að framhaldsskólakennarar væru ofhaldnir af launum sínum. Það sem menn þurfa hins vegar að hafa í huga almennt þegar við ætlum að tala um launamál kennara er að mínu mati, og það er ekkert nýtt, að það þarf að stokka upp kjarasamninga kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Það er mín skoðun. Það er mín skoðun að Kennarasambandið þurfi að breyta aðferð sinni og aðferðafræði til að við getum stuðlað að því að hafa besta fólkið innan skólakerfisins. Það eru skiptar skoðanir á því hvernig það eigi að vera en ég held að Kennarasambandið, sveitarfélögin og ríkið verði að reyna að sameinast um að halda utan um kennarastéttina þannig að hún geti verið stolt í sínu starfi.

Í kringum hrun var gert grín að mér þegar ég sagði að það fælust ákveðin tækifæri í því. Hvaða tækifæri sá ég í hruninu? Ég sá þau tækifæri að á þessum tíma frá því að hrunið varð og fram til þessa dags í dag og til lengri tíma reynum við að skapa þannig umhverfi fyrir kennarana að þeir fari ekki úr starfi strax og betur árar þannig að þeir verði dregnir út úr skólaumhverfinu og fengnir til annarra starfa annars staðar. Við höfum ekki efni á að missa besta fólkið úr kennarastarfinu þegar þenslan byrjar einhvern tímann þegar vonandi meiri atvinnusköpun er farin af stað.

Ég taldi, eins og fjármálaráðherra, á sínum tíma að allt hefði verið gert lögum samkvæmt. Enginn ráðherra bregst við öðruvísi en að gera allt lögum samkvæmt. Það er reyndar nýlunda fyrir mér sem kom fram í síðustu viku að af því að maður er í pólitík megi maður brjóta lög. Ég segi fyrir mitt leyti að við þáverandi hæstv. fjármálaráðherra töldum okkur eflaust vera að fara að lögum og þá með fulltingi Alþingis.