139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í umræðu um aðlögun eða aðildarviðræður. Ég fór ítarlega yfir minn skilning á þeim málum í gær en mig langar að bregðast við því sem hv. þingmaður sagði um kostnaðinn vegna þess að hann vitnaði m.a. í orð mín í þingræðu í gær hvað það varðar. Hann sagði að í þingsályktunartillögunni væri talað um að kostnaðurinn væri 7 milljarðar en ég hefði sagt í ræðu í gær að hann gæti verið um 200 milljónir og þarna væri himinn og haf á milli.

Það sem ég sagði í þingræðu í gær var að mig minnti, og það væri sagt með fyrirvara, að í fjárlögum þessa árs væru um 150 millj. kr. Síðan rakti ég hvað stendur í fylgiskjali V með meirihlutaáliti utanríkismálanefndar frá 2009 um kostnaðinn þar sem hann er greindur eftir árunum 2009–2012, 50 millj. kr. í þýðingarkostnað á árinu 2009, 180 millj. kr. í þýðingarkostnað á árinu 2010, 50 millj. kr. í kostnað hjá öðrum ráðuneytum en utanríkisráðuneytinu og 200 í utanríkisráðuneytinu. Fyrir þetta fjögurra ára tímabil samtals 300 millj. í kostnað hjá utanríkisráðuneytinu, 100 hjá öðrum ráðuneytum og 590 í þýðingarkostnað. Ég rakti þessar tölur hér þannig að þær komu fram í máli mínu og síðan geta menn lagt þær saman. Talan 200 kom því ekki fram í mínu máli eftir því sem ég best veit heldur talaði ég annars vegar um kostnaðinn eins og honum er lýst í þingsályktunartillögunni og hins vegar um það sem mig minnti að væri í fjárlögum ársins 2011.