139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir þetta andsvar og þær upplýsingar sem komu fram sem ég hafði reyndar aðeins gert mér grein fyrir. En það sem ég var kannski að reyna að koma inn á í ræðu minni er þessi umræða, þegar menn eru farnir að tala um að við séum í aðlögun, að við séum farin að breyta ákveðnum kerfum sem ekki hafi staðið til að gera og þar fram eftir götunum. Sumir halda því fram að við séum bara að undirbúa hlutina eins og hv. þingmaður bendir réttilega á en aðrir segja að við séum ekki að gera það heldur séum við farin að breyta áður en við samþykkjum umsóknina. Ég er að mörgu leyti alveg sammála hv. þingmanni í þessu.

Þó að ég sé ekki, og það vita allir, hlynntur inngöngu í Evrópusambandið, ég er algerlega andvígur því, hef ég líka oft verið hugsi yfir því, þegar maður er í rökræðum um ákveðna hluti, að það þurfi líka að gera ákveðnar kröfur til þeirra sem eru á móti aðildinni, að svara ákveðnum spurningum, t.d. um peningamálastefnu og annað. Við verðum líka að gera þær kröfur til okkar. Ég hef verið svolítið hugsi um ýmislegt: Hver er áhættan? Hvað mundi gerast? Eins og við höfum upplifað hér þá er brýn ástæða til að skoða hvort við gætum hugsanlega bætt stjórnsýsluna okkar. Margir hafa haldið því fram að til að mynda gætum við, eins og hv. þingmaður segir í lok andsvars síns, nýtt þá styrki sem okkur standa til boða til að ná í þekkingu til að bæta þá stjórnsýslu sem við erum með. Það þarf ekki að þýða að við ætlum að ganga í Evrópusambandið þó að við séum í þessum aðildarviðræðum í dag. Menn verða að sjá bæði kosti og galla.

Ég hef ekki alveg áttað mig á áhættunni í þessu. Sumir telja að þetta sé hið versta mál. En mér er kunnugt um það, og einn ráðherra sagði mér það í haust, þegar við vorum í kjördæmaviku, að hann hygðist sækja um styrk til að fara í rafræna sjúkraskrá, teldi færi í því að ná í þekkingu okkur að kostnaðarlausu. Ég sé ekki hættuna við það þó að ég sé algerlega andvígur inngöngu í Evrópusambandið. Ég var bara að segja í ræðu minni áðan að við þurfum aðeins að hafa ballans í umræðunni.