139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er reyndar dálítið hugsi enn þá yfir þessum styrkjum. Tökum sem dæmi þessa greiðslustofu hvað varðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið — menn hafa haldið því fram að hún verði að komast á legg til að við getum gengið inn í Evrópusambandið. Það er hins vegar skoðun þeirra sem starfa í landbúnaði að það sé ekki kerfið sem þeir vilji taka upp. Gott og vel. En þarf endilega að vera samasemmerki á milli allra hluta? Tökum sem dæmi eitthvert annað ráðuneyti. Þar gætu menn sagt: Ef við mundum hugsanlega breyta þessu í þá átt sem gert er í Evrópusambandinu þá er það ekki endilega samasemmerki á milli þess að við ætlum að ganga í Evrópusambandið. Við gætum hugsanlega líka verið að betrumbæta kerfið hér innan lands sjálf, það er það sem ég er að segja. Mér finnst umræðan vera slagorðakennd eins og oft verður í málum. Þó að þú viljir ekki breyta í andstöðu, t.d. við landbúnaðinn, einhverjum ákveðnum forsendum er ekki þar með sagt að þú getir ekki gert það einhvers staðar annars staðar gagnvart einhverjum öðrum þar sem það er þá bara gert til að betrumbæta kerfið og okkar eigin stjórnsýsluna. Ég sé í sjálfu sér ekki áhættuna í þessu.

Mér finnst það hins vegar blasa við hversu misráðið var að fara í þessa vegferð, eins og það var gert. Annar stjórnarflokkurinn vil ganga í Evrópusambandið, það fer ekki á milli mála, hinn vill ekki gera það og svo eiga menn að spila frítt spil og geta túlkað þetta út og suður, einhverja svona einfalda hluti. Það finnst mér ekki til framdráttar í því hvernig við erum að vinna úr hlutunum. Það eru eflaust einhver tækifæri í þessu, eins og hv. þingmaður segir, sem geta nýst okkur til að betrumbæta stjórnsýsluna þó að við getum látið hitt sitja eftir, hvort sem við göngum svo inn eða ekki.