139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög efnisgóða ræðu. Hann fór vel yfir það í hvaða stöðu Evrópusambandsumsóknin er í dag. Við sitjum báðir í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og ég veit að hv. þingmaður þekkir þá málaflokka afar vel sem fyrrverandi ráðherra þeirra málaflokka. Það er alveg rétt að í þessari rýnivinnu hefur komið skýrt fram að þar eru spurningar þess eðlis að Evrópusambandið er í rauninni að gera kröfur um að við byrjum að aðlaga okkur, bæði varðandi þessa greiðslustofnun og eins þetta landupplýsingakerfi, sem er hugsanlega gott og gilt en er kannski ekki forgangsmál íslenskra stjórnvalda á niðurskurðartímum þegar við erum að skera niður í velferðarkerfinu, menntakerfinu og víðar í samfélaginu.

Það er nefnilega svo að menn greinir dálítið á um hvort þetta sé aðlögun eða aðildarviðræður. Evrópusambandið segir að orðið aðildarviðræður sé villandi því að um eiginlega aðlögun sé að ræða. Utanríkisráðherra heldur því hins vegar statt og stöðugt fram að þetta séu einfaldar aðildarviðræður en ekki aðlögun.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann — í ljósi þess sem er til að mynda að gerast í þeim málaflokkum sem hann fór yfir í sjávarútvegi og landbúnaði og þess efnis sem farið var yfir í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd — sé sammála utanríkisráðherra um að þetta séu aðildarviðræður, eða Evrópusambandinu sem telur að um aðlögun sé að ræða.