139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst þetta mál snúast um er einfaldlega þessi staðreynd: Aðildarviðræður okkar að Evrópusambandinu geta eðli málsins samkvæmt aldrei orðið annað en aðlögunarviðræður öðrum þræði. Ég rakti það áðan í máli mínu að jafnvel þó að við séum stödd á þeim tímapunkti núna að við erum í rýnivinnu, við erum ekki komin í sjálfar aðildarviðræðurnar í þeim skilningi, þá erum við engu að síður stödd frammi fyrir spurningum sem eru þess eðlis að þær munu leiða til þess að við færum í aðlögun. Rétt eins og ég nefndi um greiðslustofnunina, þá er hún ekki stofnun sem við rykkjum af stað með engum fyrirvara. Talið er af þeim sem hafa skoðað þetta að það taki um tvö ár að undirbúa slíkt. Ef menn meina eitthvað með því að vera í aðildarviðræðum við Evrópusambandið hljóta menn að þurfa að taka afstöðu til þess hvort undirbúningur út af þeirri stofnun hefjist núna eða hvort við ætlum einfaldlega að standa berrössuð frammi fyrir viðsemjendum okkar síðar á tímabilinu og þá komi í ljós að við séum tæknilega ekki undir það búin að ganga í Evrópusambandið. Nákvæmlega það sama er með landskipulagið eða landnýtingaráætlunina.

Það er einfaldlega svo að landbúnaðarstefna Evrópusambandsins, sem við yrðum að yfirtaka í einni eða annarri mynd, krefst þess að upplýsingar séu til staðar. Annars er ekki hægt að greiða út þennan stuðning. Bóndi sem t.d. er að brjóta land til ræktunar á þá væntanlega rétt á annars konar stuðningi en ef hann gerir það ekki. Ef hann breytir síðan landi sínu verður hann að tilkynna það til Evrópusambandsins.

Ég veit ekki hvort menn sáu leikrit um daginn sem sýnt var í einu af leikhúsum Reykjavíkur þar sem var dálítil paródía (Forseti hringir.) um bóndann sem gleymdi eða trassaði að senda inn umsókn og var síðan orðinn skítblankur vegna þess að hann hafði trassað (Forseti hringir.) að gera grein fyrir því að hann hafði gert breytingar á landi sínu.