139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst út af síðustu spurningu, jú, ég styð þessa tillögu. Ég hefði í fyrsta lagi talið að einu álitamálin gætu verið þau hvort menn vildu einfaldlega segja: Nú er þessum viðræðum hætt og við leggjum málið endanlega til hliðar — eða hvort menn vildu leggja það á ís eins og ég sagði. Það eru dæmi um að ríki sem hafa hafið aðildarviðræður hafi frestað þeim um ótilgreindan tíma. Ef það gæti verið niðurstaðan er það eitthvað sem menn geta litið á. En stóra málið finnst mér einfaldlega vera það sem ég sagði áðan. Mér finnst það óheiðarlegt gagnvart okkur sjálfum, gagnvart þjóðinni, gagnvart viðsemjendum okkar að halda áfram á þeirri vegferð sem við erum í dag. Við erum hvorki hrá né soðin í þessum viðræðum. Við þurfum einfaldlega að svara áleitnum spurningum mjög fljótlega.

Ég vakti fljótt athygli á því að í viðræðum eins og þessum hlytu viðsemjendur okkar að ætlast til þess að við svöruðum ákveðnum grundvallarspurningum. Það er fráleitt að ímynda sér að viðræður við samband eins og Evrópusambandið mundu snúast um einhver tæknileg úrlausnarefni og síðan væru hin stóru pólitísku úrlausnarefni geymd til síðari tíma. Það er ekki þannig. Ef það er þannig að mati viðsemjenda okkar að það sé ólíklegt að við föllumst t.d. á það að ákvörðun um heildarafla verði á vegum Evrópusambandsins eða að við segjum einfaldlega: Við ætlum ekki að fylgja evrópskri landbúnaðarlöggjöf, eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lýst yfir, þá er um tómt mál að tala að vera að halda áfram einhverjum viðræðum. Við förum ekki inn í Evrópusambandið upp á þau býtti að Evrópusambandið fallist á það að við verðum með óbreytta landbúnaðarlöggjöf. Hún er í grundvallaratriðum frábrugðin landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins. Ef menn ætla að halda áfram á þessari braut þá erum við að taka ákvörðun um það eða a.m.k. að undirbúa okkur þannig að við gætum á fyrsta degi um leið og aðildarumsóknin væri samþykkt hafið landbúnaðarstuðning sem væri á forsendum Evrópusambandsins. (Forseti hringir.)

Ég tek undir það að mér finnst ekki heiðarlegt, hvorki gagnvart okkur sjálfum né (Forseti hringir.) viðsemjendum okkar að halda áfram á þessari braut.