139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heiti þingmanninum því að ég gefst ekki upp, þessu skal haldið áfram. Í 2. tölulið 55. gr. Vínarsamningsins um ræðissamband kemur fram að ræðisstofnunarsvæði skal ekki nota á nokkurn þann hátt sem ósamrýmanlegur er framkvæmd ræðisstarfa. Það á ekki að skipta sér af málefnum þess ríkis sem það starfar í.

Blekkingin er svo mikil og hálfsannleikurinn svo mikill í þessu máli. Það er engin leið að fá upp úr hæstv. utanríkisráðherra nokkuð það sem við þingmenn þurfum til að meta kostnaðinn.

Ég hef lagt fram fyrirspurn eftir fyrirspurn og sífellt er snúið út úr. Við þingmenn sem erum ekki sérlega hrifin af aðlögunarferlinu sem farið er af stað verðum að nýta nótt sem dag til að berjast við að benda á á hvaða leið hæstv. utanríkisráðherra er. Með illu eða góðu, með blekkingum og hálfgerðum lygavef, skal koma okkur inn í Evrópusambandið. Það er mjög alvarlegt. Það hefur oftsinnis hent hæstv. utanríkisráðherra að hann hefur verið leiðréttur af erlendum embættismönnum því að hann telur að hann einn sé svo einstakur að hann geti sagt það sem hann vill og heldur að aðrir trúi því og jafnvel verði farið eftir því í Evrópusambandinu.

Þetta er þörf umræða og kemur akkúrat á réttum tíma í þingið. Þetta er fyrri umr. við þessa tillögu. Frú forseti. Ég ætla að nota tækifærið og segja að ég er tilneydd til að framlengja dagsetninguna í tillögu minni um þjóðaratkvæðagreiðslu því að hún hefur setið föst í utanríkismálanefnd. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er þar formaður (Forseti hringir.) og ég innti hann eftir því í gær hvers vegna tillagan væri ekki komin á dagskrá. (Forseti hringir.) Hann lofaði bót og betrun og talaði jafnvel um að ræða þessar tvær tillögur saman. (Forseti hringir.) Gott og vel, svona er staðan.