139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:17]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki svarað því af hverju hæstv. utanríkisráðherra svarar eins og hann svarar, það er nú bara þannig. (Gripið fram í.) Ég hef vissulega áhyggjur af ríkisstjórninni og því ósætti sem þar ríkir en ég get fullvissað hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur um að ég hef miklu meiri áhyggjur af þeim ágreiningi sem er í ríkisstjórninni um það sem við erum að glíma við hér heima á Íslandi, um atvinnustefnu, orkumál og annað þess háttar, og þá af hálfu hv. þingmanna Vinstri grænna. Ég hef meiri áhyggjur af því en af afstöðu Vinstri grænna í Evrópumálum. Þeir hafa sagt mjög skýrt og skorinort að þeir séu ekki hlynntir, flestir hverjir, aðild Íslands að Evrópusambandinu og segjast mundu greiða atkvæði gegn þeim samningi sem hugsanlega kæmi til landsins. Það er bara einfalt og slétt og ég hef því ekki stórar áhyggjur af því.

Þetta aðildarferli er farið í gang. Það eru komnir hér upp æði margir hópar, rýnihópar, sem og stór og mikil samninganefnd sem er að vinna þetta ferli. Við erum rétt að hefja það. Rýnihóparnir eru að koma saman núna. Þeir hófu störf í nóvember 2009. Síðan á eftir að rýna þá vinnu og þá taka viðræður við. Síðan þarf að skoða hvern einstakan kafla og við þurfum að koma fram með það sem snýr að okkur og hvernig við viljum semja við viðsemjendur okkar í því.

Mig langar, frú forseti, að leiðrétta það sem ég kalla misskilning í þessu: Ríkisstjórnin sjálf hefur ekkert umboð í þessu máli. Það er Alþingi Íslendinga sem samþykkti að fara þessa leið. Það er utanríkisráðherrann einn og sér sem heldur, eðli málsins samkvæmt, utan um viðræðurnar vegna þess að þær eru utanríkismál. (Forseti hringir.) En ríkisstjórnin sjálf ræður engu í þessu.