139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:24]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal vitnar hér í upphaf Evrópusambandsins. Eitt af meginmarkmiðum þeirra ríkja sem þá stóðu saman var að standa saman til að koma á friði í Evrópu, til að koma í veg fyrir að Evrópuþjóðir ættu í eilífum styrjöldum sín á milli. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, þó að það eitt væri það sem Evrópusambandið hefði fengið áorkað væri það vel að mínu mati.

Ég get ekki frekar en hv. þingmaður reynt að sjá fyrir mér hvernig Evrópusambandið muni þróast í náinni framtíð, ekki frekar en mér hugnast að geta séð framtíðina fyrir svona almennt. Ef Íslendingar fá hagstæðan samning eftir þessar aðildarviðræður við Evrópusambandið og ef þjóðin ákveður sjálf — og ég er hluti þessarar þjóðar, það er stundum talað um okkur sem viljum ljúka aðildarviðræðunum eins og við séum ekki þjóðin, við séum einhverjir aðrir, og ég er líka hluti af þessu venjulega fólki — að ganga í Evrópusambandið munum við hafa áhrif þar. Ég held að við ættum sem þjóð að fara að velta því fyrir okkur hver yrði styrkur Evrópusambandsins við að fá Ísland til sín inn í sambandið frekar en að vera alltaf að velta því fyrir okkur hvað við getum fengið frá Evrópusambandinu. Við getum veitt Evrópusambandinu og þeim þjóðum margt af því sem við höfum verið að gera og munum gera ef af verður.

Aðild að Evrópusambandinu og efnahagsbatinn — ég held, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, að aðild geti stutt okkur (Forseti hringir.) í þeim efnahagserfiðleikum sem við glímum við en hún leysir þá ekki.