139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég undirstrika það sem ég sagði áðan í ræðu minni. Ég tel umsóknarferlið varðandi ESB algjörlega í samræmi við það sem hefur viðgengist í íslenskri pólitík og utanríkispólitík í gegnum tíðina. Það er alveg hægt að sjá samhengið allt frá byrjun frá því að við sóttum um aðild að NATO á sínum tíma. Við erum að tala um að vera í samstarfi og samvinnu við vestrænar lýðræðisþjóðir sem hafa það að markmiði að auka frelsi í viðskiptum, á markaði, varðandi atvinnu fólks og fleira. Það er algjörlega í samræmi við þá utanríkispólitík sem hefur verið fram til þessa.

Varðandi landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins fer ég ekki leynt með að skiptar skoðanir eru innan Sjálfstæðisflokksins. Drjúgur meiri hluti styður það að afturkalla umsóknina, ég tilheyri ekki þeim hópi.