139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég virði sjónarmið hennar að vilja ganga í Evrópusambandið eða ég reikna með að hún vilji ganga í Evrópusambandið. Hér er reyndar alltaf verið að ræða um að menn vilji sækja um aðild að Evrópusambandinu og þess vegna vil ég byrja á að spyrja: Vill hún að Ísland verði hluti af Evrópusambandinu? Einföld spurning.

Hún talar síðan eins og utanríkisráðherra, að þetta hafi verið lýðræðisleg ákvörðun Alþingis. Hann er hættur að hafa skoðun á þessu sjálfur og vísar alltaf í að Alþingi hafi tekið um það lýðræðislega ákvörðun. Þá kemur nefnilega að því sem hv. þingmaður sagði, hv. þingmenn Vinstri grænna vissu að ef þeir gengju í stjórnarsamstarf yrðu þeir að kyngja þessari pillu. Er það lýðræðislegt? Hugsanlega er meiri hluti Vinstri grænna á móti því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Er þá ekki kominn meiri hluti á Alþingi fyrir því að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu? Mér finnst ekki lýðræðislegt að þeir hafi þurft að kaupa það að afsala sér skoðun sinni hér á Alþingi.