139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:08]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi aðferð Evrópusambandsins er svik og prettir við allt sem heitir lýðræðislegt ferli. Það er árás á sjálfstæði lítillar þjóðar með því að sigla peningum í stórum stíl inn í markaðssetningu á Íslandi inn í Evrópusambandið.

Hvernig höfum við rætt undanfarin missiri um þá þingmenn sem nutu mikilla bankastyrkja í framboðum sínum? Okkur líkar það ekki. Þorra Íslendinga líkar það ekki. Hvaða munur er á því að bankar styrki einstaklinga umfram aðra, búi sér til vélmenni í sína þágu, og því sem Evrópusambandið er að gera í dag? Það er enginn munur á því, virðulegi forseti. Það er slíkt óbragð af þessum vinnubrögðum að það er með eindæmum og er maður þó vanur að vinna við jafnvel verstu aðstæður í fiskimjölsverksmiðjum landsins. (Gripið fram í: Við ódaun?) Já, við ódaun, hann venst (Gripið fram í: En ekki Evrópu…) en valdbeiting Evrópusambandsins, forsjárhyggja og valdníðsla mun aldrei venjast hjá Íslendingum. Þá er alveg eins gott að Íslendingar fari aftur heim til Noregs, klári bara hringinn.

Í 700 ár höfum við barist fyrir sjálfstæði okkar. Við höfum í 66 ár verið sjálfstæð þjóð. Nú eru heybrækurnar að gefa eftir, beltin að síga og pilsin að falla fyrir þá sem eiga að verja Ísland, verja sjálfstæði Íslands og metnað Íslendinga.