139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:14]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Á föstudaginn tók forseti Íslands ákvörðun um að synja lögunum staðfestingar í samræmi við 26. gr. stjórnarskrárinnar og nýtti þá heimild sem hann sannarlega hefur til að vísa málinu til þjóðarinnar. Hvort við viljum hafa annað fyrirkomulag á aðkomu að þjóðaratkvæðagreiðslu til lengri tíma litið er hins vegar spurning. Auðvitað má horfa til fyrri fordæma annars staðar á Norðurlöndunum um fyrirkomulag þar. Aðalatriðið er að jafnt minni hluti þings og minni hluti þjóðar eigi aðkomu að því að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild mál.

Af hálfu Stjórnarráðsins hefur verið unnið að greiningu á stöðunni eftir synjun forsetans og við höfum leitast við að koma skýrum upplýsingum á framfæri við alla þá sem málið varðar. Við þurfum líka að gera okkur betur grein fyrir því hvaða kostir eru þá í stöðunni ef svo færi að þjóðin segði nei í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við eigum öll heimtingu á því að geta byggt ákvarðanir sem fram undan eru á raunsæju og sanngjörnu stöðumati.

Ég tel mikilvægt að sú samninganefnd sem stóð sig með mikilli prýði í samningaviðræðunum fái svigrúm og tækifæri til að kynna samninginn og efnisatriði hans vel og hlutlægt fyrir þjóðinni þannig að þjóðin fái beina og milliliðalausa skýringu á því hvað samninganefndarmönnum gekk til. Ég tel að í þetta skipti stöndum við frammi fyrir afar ljósum kostum við kjörborðið, annaðhvort að ljúka þessu leiðindamáli með samningum sem eru sanngjarnir og skynsamlegir eða efna til langvinnra lagaþrætna sem munu (Forseti hringir.) torvelda okkur efnahagslega endurreisn á næstu missirum.