139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Eins og fram kom í atkvæðaskýringu minni í atkvæðagreiðslunni þann 16. febrúar sl. finnst mér sjálfsagt að vísa Icesave-lögunum til þjóðarinnar. Ég hefði talið æskilegra að við hefðum getað sameinast um það hér á Alþingi og studdi báðar tillögur þess efnis í atkvæðagreiðslunni. En með synjun forseta Íslands fær þjóðin tækifæri til að segja skoðun sína á þeim samningum sem nú liggja fyrir og ég treysti þjóðinni vel til að vega og meta kosti og galla, kynna sér málið í þaula og taka upplýsta ákvörðun í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Hlutverk stjórnvalda í þessu samhengi er að sjá til þess að atkvæðagreiðslan fari rétt og vel fram og að almenningur fái ráðrúm til að mynda sér skoðun og að upplýsingar um allar hliðar málsins séu aðgengilegar almenningi.

Ég bið ríkisstjórnina í öllum bænum að falla frá öllum hugmyndum um að nota ferðina og blanda alls óskyldum málum inn í þessa atkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Af hverju?) Lögum samkvæmt ber að halda þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þessa ákveðna máls innan tveggja mánaða. Á öðrum málum sem nefnd hafa verið er ekki slík tímapressa. Ég hvet ríkisstjórnina til að læra af fyrri mistökum og vanda sig í þetta sinn. Í fyrsta lagi hefur framkvæmd almennra kosninga aðeins vafist fyrir núverandi stjórnvöldum. Telja menn virkilega að það sé okkur fyrir bestu að rjúka í breytingar á lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing akkúrat núna á heljarspretti þegar svo margt annað liggur fyrir? Hefur það gefist vel hingað til að keyra stjórnlagaþingsmálið í gegn á ofurhraða? Hefur sú lagasetning þótt til fyrirmyndar? Ég held ekki.

Í öðru lagi er Icesave-málið eitt og sér alveg nógu flókið til að verðskulda sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að málið fái að njóta óskiptrar athygli kjósenda. Við höfum haft þetta mál til umfjöllunar í rúm tvö ár hér á þinginu, ekkert mál hefur fengið jafnmikla umræðu og umfjöllun á Alþingi. Er ekki eðlilegt (Forseti hringir.) að kjósendur fái líka sinn tíma til að fara yfir þetta mál og taka afstöðu?

Samkvæmt núgildandi lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) er heimilt að halda alþingiskosningar samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef eitthvað væri til þess fallið að tengja saman (Forseti hringir.) væru það alþingiskosningar, þá þyrftu menn a.m.k. ekki að velkjast í vafa um það hvort með atkvæði með eða á móti samningnum væru menn að taka afstöðu til ríkisstjórnarinnar.