139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:30]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Mér finnst mikilvægast að við á þinginu lítum á þá stöðu sem upp er komin í Icesave-málinu sem tækifæri, tækifæri til að skapa sátt um endanleg lok þessa máls, tækifæri til að skapa sátt um hvort við göngum frá samkomulaginu eins og það hefur verið til umfjöllunar eða hvort meiri hluti þjóðarinnar vill fara með málið inn í dómsalina þar sem líklegast er að það endi.

Við stöndum frammi fyrir skýrum valkostum vegna þess að forsetinn hefur sagt að þingið hafi ekki endanlegt umboð til að ljúka málinu. Af forsendu forseta Íslands leiðir að við getum ekki fengið viðsemjendur aftur að borðinu vegna þess að þá ræða þeir ekki við þann sem hefur endanlegt umboð. Af þessu leiðir að það er útilokað að þetta Alþingi án kosninga geti efnt til nýrra viðræðna um aðra lausn á Icesave-deilunni (Gripið fram í.) en við höfum verið að ræða um þannig að valkostirnir eru alveg skýrir. (Gripið fram í: Kosningar?) (Gripið fram í.) Ég ítreka það sem komið hefur fram í umræðunni að lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna gera ekki ráð fyrir því að óskyldum málum sé blandað við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Það eru einungis þingkosningar, sveitarstjórnarkosningar eða kosningar til embættis forseta Íslands sem geta farið fram samkvæmt lögunum samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu. Gerum ekki þau mistök að fara að blanda jafnflóknu máli og stjórnlagaþingskosningum saman við atkvæðagreiðsluna í þessu máli.

Loks vil ég segja að ég tel það mikil tíðindi að komið hafa þingmenn úr nær öllum flokkum, reyndar ekki frá Framsóknarflokknum, og lýst miklum efasemdum um að 26. gr. geti staðið í óbreyttri mynd. Það eru mikil tíðindi. Þannig hefur það ekki verið áður í umræðum á Alþingi um 26. gr. (Forseti hringir.) en það virðist vera að takast breið samstaða um að við setjum nýjan lagaramma í stjórnarskrá og síðan í almenn lög til að um þjóðaratkvæðagreiðslur gildi (Forseti hringir.) mun skýrari reglur og betri sátt en verið hefur hingað til. Það hefur verið málflutningur okkar allt frá árinu 2004 og ég fagna því að kominn sé nýr tónn í þingið um þetta.