139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

aðildarumsókn að ESB og Icesave.

[14:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Eftir því sem árin færast yfir mig tekst mér betur að beisla fögnuð minn. Það kann að valda því að hv. þingmaður varð ekki var við mikið umrót í tilfinningalífi mínu yfir ákvörðun forsetans. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ég hef á umliðnum árum verið nokkuð hlynntur því að halda því sem einn hv. þingmaður kallaði öryggisventilinn, þ.e. 26. gr., inni í stjórnarskránni (Gripið fram í.) og hv. þingmaður veit ekkert um nema ég sé sama sinnis enn þá. Það kemur kannski í ljós.

Hins vegar vil ég þakka hv. þingmanni fyrir það liðsinni sem mér virðist að mér og öðrum Evrópusinnum sé að berast. A.m.k. á ég erfitt með að bæla fögnuð minn yfir því að hv. þingmaður kemur hingað og virðist bera umhyggju í brjósti yfir velferð aðildarumsóknar gagnvart Evrópusambandinu. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ég tel að það sé ekkert að óttast í þeim efnum. Ég hirði ekki hætishót um þótt einhverjir hollenskir þingmenn skaki skellum að okkur uppi á Íslandi, þeir hafa áður gert það. Ég minni hv. þingmann á að þegar Hollendingar gengu til þingkosninga í sumarbyrjun á síðasta ári lágu þrjár tillögur fyrir hollenska þinginu um að stoppa aðildarumsóknina ef ekki væri búið að ganga frá Icesave. Ég gef ekkert fyrir það. Slíkar yfirlýsingar eru einskis virði eins og reynslan hefur sýnt. Þær hafa legið yfir okkur í bráðum heilt ár frá Hollandi, engu öðru landi, og það hefur ekkert gerst og það mun ekkert gerast.

Það liggur fyrir að hollensk stjórnvöld, bresk stjórnvöld og stjórnvöld í Evrópusambandinu hafa lýst því algerlega klárlega yfir að þetta séu tvö aðskilin mál. Ef svo fer að málið gengur til dóms hefur Evrópusambandið skilgreindan farveg fyrir það. Það undirstrikar (Forseti hringir.) að hér er um tvíhliða deilumál að ræða svo ég get hughreyst, frú forseti, hv. þingmann um að hann þarf ekki að tapa svefni yfir því að það hafi slæm áhrif á aðildarumsóknina.