139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

gerð fjárlaga.

[14:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Bara til að það sé á hreinu tel ég að það framtíðarfyrirkomulag sem æskilegast er í þessum efnum sé að Alþingi samþykki ramma að vori og síðan komi fjárlagafrumvarp fram innan þeirra að hausti og við færum okkur í áföngum yfir í það fyrirkomulag sem orðið er nokkuð fastmótað á öllum hinum Norðurlöndunum, held ég að ég megi segja, en það mun kosta okkur nokkurt tilhlaup. Það sem gerir okkur erfitt um vik að hluta til er óvissan sem við höfum verið að glíma við eftir efnahagshrunið. Það eru margar breytur á floti og það þarf að meta mjög margt jafnóðum eftir því hvernig málin þróast. Það höfum við orðið að gera í tvö undangengin ár og erum enn að gera nú þar sem vinna er að hefjast við endurskoðun efnahagsáætlunar til meðallangs tíma, enn við óvissuaðstæður að mörgu leyti, því miður. Það eru allir kjarasamningar lausir, Icesave-málið er þar sem það er statt með tilheyrandi óvissu o.s.frv. Enn erum við því að ýmsu leyti að glíma við að ná tökum (Forseti hringir.) á þeirri vinnu við óvissuaðstæður og það er ekki létt verk.