139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

erlendir nemar í háskólanámi.

[15:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir svarið. Það er gott að þetta skuli vera í skoðun. Ég held að vert sé að fara vel ofan í saumana á þessu þar sem hugsanlega er m.a. verið að takmarka aðgang að íslenskum háskólum vegna þess að við þurfum að draga saman seglin í því árferði sem nú er. Þá er vart við hæfi eða rétt að hér stundi erlendir stúdentar háskólanám án endurgjalds á meðan við erum hugsanlega að takmarka aðgang íslenskra stúdenta að háskólanámi.

Ég fagna því sem fram kom í svari hæstv. ráðherra, að verið sé að skoða málið og hugað sé að því að gera þetta til samræmis við það sem verið er að gera annars staðar á Norðurlöndum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að fylgja því máli vel eftir.