139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ástandið í Líbíu.

[15:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Ég er sammála hv. þingmanni um að vilji íslensku þjóðarinnar sé algjörlega í þá átt að fólk í þessum löndum og ekki síst í Líbíu öðlist það frelsi sem það á skilið.

Ég þakka líka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar til að gefa þessa yfirlýsingu. Ég hef áður átt orðastað við hv. þingmenn Hreyfingarinnar um það með hvaða hætti ríkisstjórnin sér tilefni til að gefa yfirlýsingar af þessu tagi. Ég hef sagt að ég kjósi fyrst og fremst að gera það héðan úr ræðustól Alþingis. Ég tel að það sé heppilegasti vettvangurinn til að koma með slíkar yfirlýsingar. Það má jafnframt segja að vilji þingmanna til að ganga eftir slíkum svörum sé nokkuð góður mælikvarði á það hvenær rétt tilefni er. Þetta er minn háttur á því og það hefur stundum verið gagnrýnt, en ég er algjörlega sammála hv. þingmanni í þessu efni.