139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[15:14]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við greiðum atkvæði um breytingar á starfsemi Lögregluskóla ríkisins.

Rétt er að rifja upp vegferð þessa máls hér í þinginu. Hún var þannig að hæstv. núverandi innanríkisráðherra, þáverandi dómsmálaráðherra, kom málinu til allsherjarnefndar 16. eða 17. desember á síðasta eða næstsíðasta degi fyrir jólahlé. Meiri hluti allsherjarnefndar féllst á þá beiðni innanríkisráðherra — hann var að vísu fjarstaddur, kom ekki á þann fund — að flytja málið. Málið hefur síðan fengið eins hraða afgreiðslu og nokkru máli er unnt að fá, þó þannig að höfð hafa verið í heiðri boðorð Alþingis úr rannsóknarskýrslunni, sem margítrekuð eru af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, um skynsamlega og vel undirbúna lagasetningu.

Það er því miður misskilningur hæstv. innanríkisráðherra að (Forseti hringir.) sá sem hér stendur hafi barist gegn málinu. Ástæðu fyrir töfum á því og (Forseti hringir.) töfum á að lögreglumenn hafi náð að hefja (Forseti hringir.) vinnu verður (Forseti hringir.) hann að leita í eigin ranni.