139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og benda honum á að lesa almennilega í gegnum það framhaldsnefndarálit sem ég hef hér gert grein fyrir. Þar koma ekki einungis fram röksemdir þingmanna Sjálfstæðisflokksins — undir þær hafa reyndar þingmenn annarra flokka tekið eins og hv. þm. Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gerði hér við 1. eða 2. umr. — heldur er hér um að tefla röksemdir sem fræðimenn á sviði samkeppnisréttar, okkar færustu sérfræðingar á þessu sviði, hafa fært fram gegn frumvarpinu. Og ég verð bara að segja að ég tel mikilvægt að Alþingi Íslendinga hlusti á álit okkar færustu sérfræðinga á þessu sviði þegar frumvarp eins og þetta, sem gerbreytir núgildandi samkeppnisrétti, er til umfjöllunar.

Það vill svo til að þó svo að hv. þingmaður dragi sínar ályktanir af því sem fram kemur í þessu nefndaráliti hefur honum ekki tekist frekar en öðrum talsmönnum þessa máls að draga það skýrt fram hver ávinningurinn af frumvarpinu er. Hann getur dregið sínar ályktanir og komið sínum sjónarmiðum á framfæri en það breytir því ekki að þau varnaðarorð sem ég hafði uppi eru ekki sögð að ástæðulausu. Þau byggjast á þeim umsögnum sem nefndin hefur fengið, bæði frá sérfræðingum og hagsmunaaðilum á þessum markaði, og hafa það að markmiði að reyna að tryggja hagsmuni neytenda vegna þess að það er neytendum í hag að hér ríki eðlileg samkeppni (Forseti hringir.) en ekki valdbeiting og valdstjórn eins og hv. þingmaður mælir fyrir.