139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[15:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ein aðferð til að halda verði niðri til hagsbóta fyrir neytendur og það er samkeppni og það er samkeppni og það er samkeppni, af því að það er stundum í tísku að segja hlutina þrisvar. Þess vegna styð ég þetta frumvarp. Við þurfum að hafa sterka og ákveðna samkeppnislöggjöf.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi um að langan tíma tæki að afgreiða mál hjá Samkeppniseftirlitinu. Eðli máls samkvæmt tekur langan tíma að fara í samkeppnismál. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé mér sammála um að við viljum ekki að það sé fljótaskrift á því þegar verið er að athuga fyrirtæki þessa lands. Það þarf því að standa vel að verki. Það er ekki bara á Íslandi sem slík mál taka langan tíma, þau gera það líka annars staðar. Með þeim orðum er ég ekki að segja að fólk geti ekki alltaf gert betur. Ég er alveg klár á því, fólk getur alltaf gert betur. En það er eðli þessara mála að þau taka langan tíma.

Ég vil líka minna á að viðskiptanefnd mælti með því og það var samþykkt í fjárlögum þessa árs að auka fjárheimildir til Samkeppniseftirlitsins þannig að það gæti aukið við sig um tvö til þrjú stöðugildi, sem sagt bætt við mannafla sem því nemur. Það verður þá vonandi til þess að hægt verði að vinna skjótar að málum. Við hljótum að gleðjast yfir því, bæði ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson.