139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var skýr spurning frá hv. þingmanni. Í mínum huga er svarið við henni já. Sú ríkisstjórn sem er við völd í landinu er ekki vinveitt atvinnulífinu, hún er andstæð því. Af hverju segi ég það? Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur kerfisbundið gripið til aðgerða á öllum sviðum til að íþyngja fyrirtækjum í landinu, ýmist með frumvarpi eins og því sem hér er til umræðu, með skattahækkunum, með hækkunum á tryggingagjaldi og með lögfestingu ýmissa gjalda sem gera fyrirtækjunum í landinu erfiðara fyrir en áður.

Þar fyrir utan hefur hæstv. ríkisstjórn búið svo um hnútana að þeim sem vilja standa að einhverri uppbyggingu og fjárfestingu í landinu er gert það ókleift. Þeir hafa rekið sig á veggi sem t.d. hæstv. umhverfisráðherra hefur reist og hafa ekki komið fyrir nema þegar Hæstiréttur hefur komið til kastanna og dæmt hæstv. umhverfisráðherra fyrir lögbrot í þeirri viðleitni að stöðva eða bregða fæti fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu. Syndalistinn er langur þannig að svarið er auðvitað já.

Ef hv. þingmaður gæti bent mér á einhver atriði sem bentu til þess að sú ríkisstjórn sem nú er við völd í landinu sé vinveitt atvinnulífinu þá yrði ég honum ákaflega þakklátur. En það er alveg sama hversu vel ég íhuga það og legg höfuðið í bleyti, ég get ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að sú ríkisstjórn sem nú er við völd í landinu sé óvinveitt atvinnulífinu. Þetta er ekki bara mín skoðun, þetta er líka skoðun þeirra sem hafa tekið þátt í þeim skoðanakönnunum sem fyrir liggja. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) er andsnúin atvinnulífinu.