139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi óska þess að ég gæti deilt trausti hv. þingmanns hér áðan á stjórnsýslunni. Það er nýbúið að dæma einn ráðherra af Hæstarétti og það gerðist ekki neitt við þann dóm, ekki nema það að hann ætlaði að endurskoða úrskurðinn o.s.frv. Hv. þingmaður treystir því að stjórnsýslan fari dálítið vel að, ég veit ekki hverju, hún á ekki að fara að lögum því að samkvæmt lögunum getur hún gert hvað sem er.

Segjum að hv. þingmaður stofnaði fyrirtæki á einhverju sviði, alveg sama hvaða, og hann veitti alveg sérdeilis góða þjónustu og alveg sérdeilis ódýra vegna góðrar stjórnunar og góðs skipulags. Honum tækist að ná undir sig markaði, ekki vegna þess að hann langaði til þess heldur vegna þess að það gerðist, vegna þess að hann veitti svo góða þjónustu og hefði svo ódýra vöru. Segjum að hann næði undir sig 70–80% af markaðnum, alveg óvart, hann ætlaði ekki að gera það. Þá allt í einu kæmi Samkeppniseftirlitið og segði: Þessi atvinnurekandi, hv. þm. Eygló Harðardóttir, er kominn með of stóra hlutdeild í markaðnum, ég ætla að skipta fyrirtækinu upp og gera það óarðbært aftur. Hvaða hvati heldur hv. þingmaður að hann hafi til að lækka verðið, til að skipuleggja betur og veita betri þjónustu? Þetta er meginmarkmiðið á bak við þetta. Það að treysta því að Samkeppniseftirlitið fari ekki aðeins að lögum heldur sé sanngjarnt og að Alþingi hafi eftirlit með lögunum af því að þau eru svo illa framkvæmanleg er ekkert annað en framsal á lagaheimildum (Gripið fram í.) og það höfum við alþingismenn ekki leyfi til að gera. Við höfum ekki leyfi til að framselja vald okkar, lagaheimildavald, og treysta því að við gætum haft eftirlit með því eftir á.