139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda á það sem kemur fram í breytingartillögu meiri hluta viðskiptanefndar um að við frumvarpið bætist heimild fyrir Samkeppniseftirlitið til að grípa til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Þarna birtist mjög skýrt ramminn sem Samkeppniseftirlitið á að miða við ef það telur ástæðu til að beita þessu ákvæði. Háttsemin þarf að hafa orðið almenningi til tjóns. Þess vegna er líka þessi áhersla í nefndarálitinu á að það þurfi að færa fram sannanir á því að skipulag eða uppbygging fyrirtækis komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni, út frá því að það sé almenningi til tjóns. Síðan á líka að beita meðalhófsreglunni þannig að það þurfi að sýna fram á og sanna að uppskipting fyrirtækis sé í réttu hlutfalli við þær samkeppnishömlur sem stafa af stöðu þess á markaði og að með vægari aðgerðum en uppskiptingu náist ekki sami árangur. Þarna setjum við rammann skýrar en ákvæðið sjálft.

Síðan vil ég líka benda á annað sem kemur fram í áliti minni hluta viðskiptanefndar og er að mínu mati algerlega óháð samþykkt þessa frumvarps. Þetta er bara hluti af því að tryggja samkeppni og koma í veg fyrir fákeppni sem við vitum að er til staðar hérna. Í minni hluta viðskiptanefndar benda þeir á að það er ýmislegt sem við getum gert í viðbót, m.a. að vinna markvisst að afnámi ýmissa aðgangshindrana sem eru á markaði og líka að styrkja enn frekar Samkeppniseftirlitið þannig að það geti lokið rannsóknum og athugunum sem lögin útheimta innan fárra mánaða í staðinn fyrir kannski tveggja, þriggja, fjögurra ára eins og það tekur núna. Ég treysti á að hv. þm. Pétur Blöndal muni vinna með meiri hluta viðskiptanefndar í að tryggja að við getum gert þetta samhliða því að samþykkja þessar breytingar.