139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði því ekki hvaða áhrif það hefði á hvata hans sem atvinnurekanda að reka fyrirtækið skipulega og með góðri stjórnun þannig að það gæti lækkað verðið og veitt betri þjónustu. Hann svaraði því ekki hvað gerðist með hvata slíks stjórnanda þegar hann ætti á hættu að fyrirtækinu yrði skipt upp með einhverjum matskenndum aðgerðum Samkeppniseftirlitsins sem kostaði heilmikið vesen og heilmikinn álitshnekki og gerði það að verkum að eignin sem hann væri búinn að byggja upp hryndi í verði.

Hv. þingmaður svaraði þessu ekki. Þetta er veigamikið atriði vegna þess að hvatinn til að gera vel er tekinn í burt. Þeir sem eru með illa rekin fyrirtæki þurfa ekki að óttast þetta ákvæði, ekki fyrir 10 aura, þeir verða aldrei svo stórir. Þeir verða jafnilla reknir og allir hinir. En ef einhver kemur með fyrirtæki sem er vel rekið, getur veitt góða þjónustu og boðið lágt verð og nær undir sig óvart markaðshlutdeild sem var kannski ekkert endilega markmið hjá honum getur hann lent í því að fyrirtækinu verði skipt upp, það tekur einhver ár og eignin hans hrynur í verði á meðan. Allt er í óvissu, hann missir bestu starfsmennina, missir markaðshlutdeild og allt slíkt og ég spyr: Hvaða hvati er hjá þessum atvinnurekanda til að gera yfirleitt nokkurn skapaðan hlut til að bæta reksturinn, lækka verðið og auka þjónustuna?