139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega ósammála því að ég hafi ekki svarað spurningu hv. þm. Péturs Blöndals. Ég tilgreindi nákvæmlega að hérna erum við ekki að tala um að einstaklingar geti ekki rekið fyrirtæki sín vel og náð árangri í rekstri. Við gerum hins vegar þá kröfu að þeir nái ekki árangri á þann máta að það sé almenningi til tjóns, það er lykilatriðið. Ég sé ekki að það sé nokkuð í beitingu þessa ákvæðis hjá Samkeppniseftirlitinu sem ætti að koma í veg fyrir hinn svokallaða innri hvata, eða hvað sem við viljum kalla það, hjá fólki til að stofna fyrirtæki, reka þau vel og leyfa þeim að vaxa og dafna. Þau eiga hins vegar að gera það innan þess ramma að það verði almenningi ekki til tjóns. Ég tel mig hafa svarað spurningu hv. þingmanns fullkomlega.