139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að bjóða hv. þingmanni að draga til baka þau lokaorð sem hún viðhafði í ræðu sinni þar sem hún fullyrti að við vinnslu þessa máls hefði ekkert komið fram í umræðum í nefndinni um að einhver hætta væri á því að Samkeppniseftirlitið mundi misnota þá valdheimild sem frumvarpið mælir fyrir um eða ganga of langt við beitingu þess. Það er akkúrat þetta atriði sem gagnrýnin á frumvarpið gengur út á, ekki bara frá þeim fræðimönnum sem ég vísaði til, heldur meðal flestra sem sendu inn umsagnir um málið. Það er hætta á því að Samkeppniseftirlitið gangi of langt í því að brjóta upp fyrirtæki sem ekki hafa gerst brotleg við lög vegna þess að heimildin eins og hún er útfærð í frumvarpinu og verður hugsanlega lögfest sé of matskennd og óskýr og að það séu engar leiðbeiningar í lagatextanum sjálfum um það hvernig eigi að beita henni.

Þetta er eitt meginatriðið sem gagnrýnt var í umfjöllun nefndarinnar og í ljósi þess átta ég mig engan veginn á því að hv. þingmaður telji sig vera í færum til að lýsa því yfir í ræðu sinni að þetta atriði hafi ekki verið gagnrýnt. Það kemur mér mjög á óvart ef sú gagnrýni hefur farið fram hjá hv. þingmanni við vinnslu málsins.