139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá mér að hv. þingmaður styður þetta mál. Stuðningur hennar er jafnvel einlægari en stuðningur fulltrúa stjórnarflokkanna sem hafa mælt með frumvarpinu. Það hefur komið mér töluvert á óvart vegna þess að a.m.k. flokksbræður hennar hafa í umfjöllun um þetta mál haft mjög miklar efasemdir um efni þess.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í ljósi þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á þetta frumvarp: Velkist hv. þingmaður ekki í neinum vafa um að hún sé á réttri leið í þessu máli þegar fyrir hv. viðskiptanefnd koma færustu sérfræðingar landsins á sviði samkeppnisréttar og lýsa því mjög skýrt, í fyrsta lagi að þeir telji þetta frumvarp ekki til bóta þegar núverandi samkeppnislög eru skoðuð? Það kemur alveg skýrt fram í umsögn þeirra að þeir telja þessa lagabreytingu ekki vera til bóta.

Í öðru lagi lýsa þeir því að þeir geri sterka fyrirvara við það að meginákvæði frumvarpsins standist ákvæði stjórnarskrárinnar og í þriðja lagi segja þeir að það sé verulegur vafi á að með frumvarpinu sé vald framselt til Samkeppniseftirlitsins með lögmætum hætti. Telur hv. þingmaður ekki ástæðu til að hafa einhverjar efasemdir um ágæti þessa frumvarps þegar okkar færustu sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar hafa uppi slíkar efasemdir við meðferð málsins? Ég man a.m.k. að þegar ég kom fyrst inn á Alþingi og fræðimenn á sviði lögfræði höfðu uppi sambærilegar efasemdir í sambærilegum málum hafði ég tilhneigingu (Forseti hringir.) til að taka þær alvarlega en ekki ýta þeim bara út af borðinu eins og mér sýnist hv. þingmaður (Forseti hringir.) ætla að gera hérna.