139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvort hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir var sammála mér í því að eðlilegra væri að Samkeppniseftirlitið hefði sett það í forgang að hamast sem mest það gæti, jafnvel út fyrir þær heimildir sem það taldi sig hafa, á risum á markaði sem hefðu gríðarleg áhrif á samkeppnisstöðu og hagsmuni einstaklinga í landinu en að nýta tíma sinn í að djöflast á — afsakið orðbragðið, frú forseti — einyrkjum sem kæmu saman á ársfundi. Ég áttaði mig ekki alveg á hvort það kom fram í ræðu hv. þingmanns.

Ég tel alveg klárt að eðlilegt hefði verið að forgangsraða með þeim hætti að sækja þangað sem hagsmunirnir voru ríkastir og mestir fyrir íslenska þjóð og þar sem var augljóst að samkeppnisstaðan var hvað verst. Fjölmargir í þessum geira kvörtuðu yfir þessari yfirburðastöðu risanna á markaðnum. En þar fyrir utan held ég líka að Samkeppniseftirlitið — en það er kannski svolítið andinn í þessari löggjöf okkar og kannski vísir að andanum í samfélaginu, við erum full af tortryggni og reiði og heift — ætti kannski sem stofnun að koma fram sem aðili sem leiðbeindi og væri ráðgefandi en ekki fyrst og fremst sem einhver wrefsiglaður vöndur stjórnsýslunnar. Það er kannski sjónarmið sem við hefðum átt að ræða. Ég veit dæmi þess að menn hafi leitað ráða og leiðbeininga hjá Samkeppniseftirlitinu en fengið yfir sig refsivönd og allt að því hálfgerðar ofsóknir, vilja sumir alla vega meina.