139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið og þessar tvær spurningar. Varðandi þá seinni hvort þetta sé varasamt og hvort skynsamlegra væri að setja ákvæðið inn í lagatextann þá hefði ég haldið það. Ég kom þess vegna upp til að ítreka þá skoðun mína. Ég veit að í viðskiptanefnd hefur meiri hlutinn verið fullvissaður um að þetta sé nægileg vörn og komið hefur fram skilningur meiri hlutans á því hvað menn ætluðu sér með þessu ákvæði. Ég hefði talið eðlilegra að ákvæðið væri sett inn í lögin en sætti mig við þessa framkvæmd en taldi líka nauðsynlegt að ræða þetta í þingsal til öryggis.

Varðandi þá fræðilegu spurningu um það ef ég ræki fyrirtæki með góðum hætti, sem ég vonast til að væri rétt hjá hv. þingmanni, og gæti þar af leiðandi lækkað verð á vörunni og fyrirtækið mundi síðan sífellt vaxa og færi yfir 50% mörkin, þá má benda á að með þeim heimildum sem Samkeppniseftirlitið hefur haft hingað til hefur það ekki skipt sér af því þó að fyrirtæki hafi jafnvel farið yfir 60–70% mörkin. Menn hafa getað farið í kringum það á allan hátt. Ég held að við verðum að treysta því að siðferði okkar sé þannig að við séum ekki að velta slíku fyrir okkur. Ef við rekum fyrirtæki á markaði þá rekum við fyrirtækið eins vel og við getum og skilum eðlilegum hagnaði, við veltum því ekki fyrir okkur hvort við séum komin inn á eitthvert svið hjá Samkeppniseftirlitinu eður ei. Ég held að enginn úti á markaðnum velti því fyrir sér hvort þeir séu hugsanlega að valda því með athöfnum sínum að allt í einu komi Samkeppniseftirlitið (Forseti hringir.) í heimsókn, ég trúi því ekki. Ég held að menn séu bara fyrst og fremst að hugsa um eigin bisness meðan á því stendur.