139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í ræðu minni tel ég að við séum að veita Samkeppniseftirlitinu mjög víðtækar heimildir. Ég tel að um leið og við gerum það verðum við að kveikja á vaktaranum hjá okkur sjálfum og þinginu og fylgjast vel með hvernig Samkeppniseftirlitið fer fram með þessar heimildir. Því hefur verið lýst að auðvitað gilda um þetta stjórnsýslureglur og við verðum að treysta því að Samkeppniseftirlitið fari þar að reglunni um meðalhóf. Við verðum auðvitað að gera það. Við megum ekki alltaf búast við því að það sé ætlan manna að brjóta lög, brjóta siðferði og brjóta allar reglur. Við verðum fyrst og fremst að ætlast til þess að menn séu tilbúnir að fara að lögum, fara að reglum og sinna verkum sínum af bæði skynsemi og meðalhófi.

Ef við erum að feta nýjar brautir sem við erum sannarlega að gera, við erum að auka heimildir til Samkeppniseftirlitsins, þá hlýtur það um leið að leggja þær kvaðir á okkur í þinginu að við séum tilbúin til að fylgjast mjög gaumgæfilega með því hvernig Samkeppniseftirlitið fer fram með þessar heimildir og hvernig það vinnur með þær. Ég vil í það minnsta trúa því — þrátt fyrir þann vafa sem ég hef verið að planta hér og þær efasemdir um hvernig Samkeppniseftirlitið hafi unnið hingað til — að sú stofnun sem og aðrar í samfélagi okkar geti bætt sig og það sé nauðsynlegt að þær geri það. Ég vil því gefa þeim það tækifæri að þær sinni þessu því að það er mikilvægt að hér sé eðlileg samkeppni, ég tek undir það með hv. þingmanni, því að hún mun væntanlega skila okkur hvað mestu þegar fram í sækir.