139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:06]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum sammála um það, við hv. þm. Birgir Ármannsson, að samkeppni sé mikilvæg og af hinu góða. Ég vil leita allra leiða til þess að efla virka samkeppni í þessu landi og ég tel að þetta frumvarp sé mikilvægt skref í þá átt.

Um leið er mikilvægt að hér í landi séu öflugar eftirlitsstofnanir sem geti tryggt að markaðurinn virki á réttan hátt. Við höfum lært það á undangengnum árum að það er ekki gott að hafa eftirlitsstofnanir sem eru ekki öflugar og hafa ekki ríkar heimildir og af því erum við að reyna að læra. Útgangspunkturinn í þessu frumvarpi er ætíð sá, og ég vil ítreka það hér, að hagsmunir neytenda liggi ætíð til grundvallar við alla ákvörðunartöku og við flókið ferli ákvörðunartöku innan Samkeppniseftirlitsins eins og ég rakti áðan. Ef hagsmunir neytenda eru þeir að ekki beri að skipta upp fyrirtækjunum verður fyrirtækjunum ekki skipt upp. Sé það hagsmunum neytenda fyrir bestu að fyrirtækjunum sé skipt upp vegna þess að þau séu í einokunarstöðu og innheimti einokunarhagnað, eins og ég rakti í ræðu minni, ber að skipta þeim upp.

Staða neytenda liggur ætíð til grundvallar. Ef við óttumst um stöðu íslensks atvinnulífs út frá þessari lagasetningu viðurkennum við um leið að stór hluti íslenskra fyrirtækja sé í einokunarstöðu og innheimti hagnað á kostnað neytenda en búi ekki í virkri samkeppni og ekki í umhverfi þar sem neytendur hér á Íslandi, sem búa t.d. við hátt verð á mörgum vörum, njóti samkeppni á fjölbreyttum mörkuðum þannig að fyrirtækin keppi á grundvelli samkeppninnar en ekki á grundvelli viðkomandi stöðu í krafti fákeppni.