139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:16]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir spurninguna. Hann bendir á að athugasemdir hafi komið fram við þau fordæmi sem ég nefndi úr norsku, bresku og bandarísku samkeppnislöggöfinni. Það er hárrétt að það var gagnrýnt og dregið fram í umfjöllun nefndarinnar. Ég er hins vegar ósammála því að þetta séu ekki fyrirmyndir sem við getum litið til þegar við horfum til þess hvort eðlilegt sé að veita Samkeppniseftirlitinu heimildir af þessum toga. Ég tel að samkeppnisumhverfi okkar sé þannig að okkur sé akkur í því að Samkeppniseftirlitið hafi fleiri tæki til að beita úrræðum sem verja og endurheimta almannahagsmuni en það hefur í dag, sérstaklega þegar við lítum til þeirrar ríku rannsóknarskyldu sem sett er á herðar Samkeppniseftirlitinu í málinu. Það er ekki eins og eftirlitið geti beitt þessu tæki sínu upp á hvern dag, í hverri viku eða hverjum mánuði með ómálefnalegum hætti heldur þarf aðgerðum að fylgja ítarlegur rökstuðningur og gæta meðalhófs að auki þannig að úrræði eftirlitsins séu í réttu samhengi við meint brot eða meinta háttsemi viðkomandi fyrirtækja.

Það er rétt í gagnrýni sérfræðinganna að úrræðið er matskennt og rétt er að viðurkenna það. Það á að hvetja þingheim til að vera vel á vaktinni gagnvart þessari beitingu ákvæðisins svo að Samkeppniseftirlitið ræki með vönduðum og eðlilegum hætti þessa rannsóknarskyldu og sönnunarbyrði sem ég hef þegar nefnt. En ég tel að það miklir hagsmunir séu undir, ríkir almannahagsmunir sem geri það að verkum að við yrðum í betri stöðu með samþykkt þessa frumvarps heldur en við erum í í dag.