139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:21]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég bý að því ágæta taugakerfi að ég fer ekki af hjörunum þó að fram komi gagnrýni frá aðilum í samfélaginu á þetta frumvarp eða önnur. Maður tekur að sjálfsögðu mark á þeim gagnrýnisröddum sem fram koma, en að sjálfsögðu erum við alltaf í þeirri stöðu að þurfa að vega og meta þá hagsmuni sem við erum með í höndunum og hvort þeir hlutir sem við erum að leggja til í þingmálum séu líklegir til að færa okkur betri stöðu en við erum í í dag. Ég hef fyrir því góða tilfinningu að við séum á rétti leið með þetta mál þegar ég hef í huga þær ríku skyldur sem eru settar á herðar Samkeppniseftirlitinu að færa ítarleg rök fyrir máli sínu og skilgreina vel þá markaði sem um ræðir í hverju tilviki og gæta síðan meðalhófs í niðurstöðum sínum og úrskurðum. Ég tel að þar séu nægilegar girðingar sem koma í veg fyrir að þessu ákvæði sem skiptir að mínu mati máli, að bæta inn í tækjakost Samkeppniseftirlitsins, verði beitt með skynsamlegum hætti í framtíðinni.