139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:28]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi gert ágæta grein fyrir því í ræðu minni að það skiptir einmitt mjög miklu máli hvernig Samkeppniseftirlitið fer með þetta vald og það kom fram í lögskýringargögnum, þ.e. athugasemdum við frumvarpið, með nákvæmum hætti enda vitnaði ég beint í frumvarpið þegar ég dró það fram að Samkeppniseftirlitið þarf að skilgreina viðkomandi markað, leiða skýrt í ljós þær samkeppnishömlur sem um væri að ræða. Sömuleiðis er þar slegið í gadda að þessu ákvæði verði eingöngu beitt í undantekningartilvikum og loks að þess sé gætt að ekki sé fyrir hendi jafnárangursríkt úrræði sem er minna íþyngjandi, meðalhófsreglan, sem áður hefur komið fram í umræðunni. Ég tel því að vel sé fyrir þessu séð og það er einmitt ástæðan fyrir því að ég vildi gera þetta sérstaklega að umtalsefni.

Hins vegar er víða í löggjöf okkar um að ræða ákvæði sem eru að einhverju leyti matskennd og það helgast af eðli viðkomandi mála. Stundum erum við með aðstæður sem eru þess eðlis að ekki er hægt að sjá fyrir öll þau tilvik fyrir fram sem geta komið upp og geta kallað á heimildir af þessu tagi. En þegar allir hlutir eru dregnir saman, mikilvægi þess að Samkeppniseftirlitið hafi sterkari stöðu gagnvart málum sem tengjast fákeppni og markaðsráðandi stöðu einstakra fyrirtækja sem eru almenningi til tjóns — ég ítreka að það er lykilatriði í málinu — þá tel ég að frumvarp þetta sé til bóta og það eigi að ná fram að ganga en ég ítreka sömuleiðis að sjónarmið minni hlutans eru réttmæt og kalla á það að Alþingi ræki eftirlitshlutverk sitt mjög nákvæmlega á komandi missirum.