139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[17:49]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fylgi hér úr hlaði tillögu til þingsályktunar um ferðamálaáætlun fyrir árin 2011–2020.

Í maí árið 2005 samþykkti Alþingi þingsályktun um ferðamál fyrir tímabilið 2006–2015 og hafa stjórnvöld síðan þá unnið á grunni þeirrar áætlunar. Þó hefur það margt breyst í umhverfi ferðaþjónustunnar á síðustu árum, bæði lagaumhverfi og einnig í starfsumhverfi að öðru leyti, að samstaða ríkir nú um að gera nýja ferðamálaáætlun vegna þess að við stöndum á ákveðnum tímamótum. Aðstæður í atvinnulífi Íslendinga hafa breyst verulega og mikilvægi þess að fjölga störfum og styðja við útflutningsgreinarnar hefur aukist mikið frá bankahruni. Umsvif í ferðaþjónustu hafa líka vaxið mikið, m.a. vegna stóraukinna ferðalaga innan lands. Þá breyttist líka staða ferðaþjónustunnar innan stjórnkerfisins þegar ný lög um skipan ferðamála tóku gildi 1. janúar 2006. Þá varð Ferðamálastofa til sem stjórnsýslustofnun sem sér m.a. um leyfisveitingar ferðaskrifstofa og síðan varð Ferðamálaráð ráðgefandi fyrir ráðherra, m.a. um áætlanir í ferðamálum.

Þegar málaflokkurinn fluttist frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis 1. janúar 2008 jókst formlegt samstarf ferðaþjónustunnar við stofnanir þess ráðuneytis sem og við allt stoðkerfi atvinnulífs og nýsköpunar og eru ferðamálin orðin snar þáttur í starfsemi allra stofnana iðnaðarráðuneytisins sem og ráðuneytisins sjálfs. Þá voru samþykkt ný lög um Íslandsstofu hér á Alþingi á síðasta ári og tók hún við hlutverki Ferðamálastofu á sviði erlendrar markaðssetningar þann 1. júlí sl. Tilgangurinn með þeirri breytingu er að ná fram hagræðingu og beina markaðsstarfi allra útflutningsgreinanna í einn farveg. Ferðamálastofa mun eftir þessa breytingu því beina kröftum sínum alfarið að uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar með verkefnum á sviði vöruþróunar, rannsókna og umhverfismála auk gæða- og öryggismála.

Þessu til viðbótar birti Hagstofan í fyrsta sinn sérstaka ferðaþjónustureikninga þann 10. október 2008, en þeir sýna fram á mikilvægi greinarinnar í atvinnusköpun og efnahagslífinu öllu. Síðast en ekki síst vil ég nefna það hér að aukin áhersla á ferðaþjónustu sem framtíðaratvinnugrein var líka ein meginniðurstaða þjóðfunda í öllum landshlutum á síðasta ári sem blásið var til vegna Sóknaráætlunar 20/20.

Af þessum ástæðum er nú lögð fram þingsályktunartillaga um ferðamálaáætlun frá 2011–2020 ásamt aðgerðaáætlun, sem nær þá til skemmri tíma, sem er ætlað að leysa þá fyrri af hólmi.

Meginmarkmið þessarar ferðamálaáætlunar eru að auka arðsemi greinarinnar í íslensku efnahagslífi og snar þáttur í þessu er að standa að markvissri uppbyggingu áfangastaða. Þar horfum við t.d. til þess verkefnis sem ætlað er framkvæmdasjóði ferðaþjónustunnar, þ.e. að ráðast í mikla uppbyggingu á ferðamannastöðum. Sú uppbygging er orðin mjög brýn, ekki bara náttúrunnar vegna, einu helsta aðdráttaraflinu fyrir ferðamenn, heldur líka vegna þess að það að ganga vel frá og vanda til mannvirkjagerðar á vinsælustu ferðamannastöðum okkar getur líka aukið á upplifun ferðamannsins sem aftur skilar okkur meiri verðmætum. Þannig að allt þetta helst í hendur, náttúruverndin og sömuleiðis aukin verðmæti.

Þá er eitt af meginmarkmiðunum að stuðla að öflugri vöruþróun í greininni. Nú þegar sjáum við mjög skemmtilega þróun í þeim efnum og hefur iðnaðarráðuneytið m.a. gert samning við samtök fyrirtækja á sviði heilsuferðaþjónustu sem er klasi sem er í mjög örri þróun og er að skila af sér mjög flottri og verðmætri vöru fyrir Íslendinga og miða inn á þann tíma ársins sem fæstir ferðamenn koma hingað, sem er vetrartíminn.

Ég vil í öðru lagi nefna að við höfum gert samning við klasa sem heitir Samtök um sögutengda ferðaþjónustu. Við erum líka aðilar að menningarsamningum til að byggja upp þetta net um landið, öflugt menningarlíf um landið, sem er aðdráttarafl í sjálfu sér. Þetta þýðir að við erum að kalla eftir því að fyrirtækin taki höndum saman um að skerpa ímynd ferðaþjónustunnar sem gefur þá skýrari mynd af Íslandi á öllum þeim sviðum sem ég hef hér nefnt. Síðan eru auðvitað fleiri til. Þetta er sú þróun sem við horfum til á sviði ferðaþjónustunnar og sú þróun sem er að eiga sér stað úti á akrinum.

Annað markmið er að standa að markvissu kynningarstarfi til að lengja ferðamannatímabilið. Þetta er verkefni sem hefur verið í gangi árum saman og hefur gengið býsna vel, en engu að síður getum við gert enn betur í því. Ekki síst eru það nokkrir mánuðir sem við eigum enn eftir að loka til að við getum með sanni kallað ferðaþjónustuna heilsársatvinnugrein. Þannig þurfum við að minnka árstíðasveiflur og stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið allt. Það verður líka gert með því að ráðast í uppbyggingu fleiri áfangastaða en við höfum kannski í dag.

Fleiri markmið eru að sjálfsögðu inni í myndinni, m.a. að auka gæði fagmennsku, öryggi og umhverfisvitund ferðaþjónustunnar og skilgreina og viðhalda sérstöðu Íslands sem áfangastaðar ferðamanna, m.a. með öflugu greiningar- og rannsóknarstarfi.

Eins og menn sjá þegar þeir skoða þingsályktunartillöguna er markmiðunum og verkefnunum skipt upp í fjóra liði. Í fyrsta lagi eru það innviðir og grunngerð. Í öðru lagi kannanir, rannsóknir og spár. Í þriðja lagi vöruþróun og nýsköpun og í fjórða lagi markaðsmál. Er þetta gert vegna þess að kallað hefur verið eftir því af greininni að stjórnvöld marki sér skýrari stefnu á færri sviðum þannig að við sjáum meiri árangur af því starfi sem lagt er upp með af hálfu stjórnvalda. Býsna góð sátt hefur náðst um þessi fjögur yfirmarkmið en síðan heyra mörg verkefni þar undir.

Í þessari þingsályktunartillögu er náttúra Íslands skilgreind sem helsta auðlind ferðaþjónustunnar og sett fram markmið um nauðsynlega innviði og grunngerð. Formlegt starfsumhverfi ferðaþjónustuaðila er auðvitað hluti af þessum innviðum. Á vegum iðnaðarráðuneytisins fer núna fram endurskoðun laga um skipan ferðamála, m.a. með tilliti til þess regluverks sem gildir um starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja. Einkum er í þessu samhengi horft til öryggismála en það er mjög mikilvægt að þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækjanna á þessu sviði verði skýrðar.

Markmið áætlunarinnar hvíla á könnunum, rannsóknum og spám, en ferðaþjónustan ber, verðum við að segja, skarðan hlut frá borði þegar kemur að fjármögnun og rannsóknum. Það er mjög mikilvægt að auka hlut ferðaþjónustunnar, þess gríðarlega mikilvæga atvinnuvegar, á því sviði. Gert er ráð fyrir að Ferðamálastofa beri ábyrgð á að móta stefnu um þennan málaflokk ásamt kortlagningu á auðlindum og innviðum ferðaþjónustunnar. Slík kortlagning er afar mikilvæg til að hægt sé að gera langtímaáætlanir um svæðisbundna uppbyggingu ferðaþjónustunnar.

Eins og ég kom inn á áðan er ein stoðin vöruþróun og nýsköpun en það hefur sýnt sig að í slíkum verkefnum hefur svæðisbundið klasasamstarf gefið góða raun og líka þetta faglega klasasamstarf sem ég nefndi hér áðan að við hefðum verið að semja við Klasa um.

Nýsköpunarmiðstöð hefur ásamt Ferðamálastofu staðið fyrir ýmsum verkefnum á þessu sviði. Á grunni þeirrar reynslu er gert ráð fyrir að áframhaldandi aðkoma hins opinbera að vöruþróunar- og nýsköpunarverkefnum verði í formi samstarfsverkefna og þekkingaryfirfærslu og um leið verði líka stoðkerfi ferðaþjónustunnar einfaldað á þann veg að öflugar einingar verði út um allt land. Þessi einföldun er ekki bara nauðsynleg þegar kemur að ferðaþjónustunni heldur á sér stað núna töluverð vinna, sem ég hef áður greint frá í þessum sal, á okkar vegum þar sem við erum að vinna að því að einfalda allt stoðkerfi atvinnulífsins sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið þannig að það verði eitt anddyri og aðgengi inn í bæði sjóðakerfið og líka handleiðslu og aðra þjónustu sem okkur ber að veita, að aðgengið að því verði skýrt og komi saman á einn stað í öflugar og aðgengilegar einingar. Að þessu er nú unnið enda kom í ljós þegar við fórum að taka viðtöl við okkar viðskiptavini, sem er auðvitað atvinnulífið sjálft, að eftir þessu hefur verið kallað. Virðulegi forseti, ég biðst afsökunar á þessum útúrdúr, en mér fannst ég verða að koma þessu að í þessu samhengi þó að örlítið hafi verið farið út fyrir þá áætlun sem ég fer hér yfir.

Ferðamálaáætlunin gerir líka ráð fyrir að opinbert kynningarstarf taki mið af öðrum markmiðum í þessari áætlun. Þannig horfum við til þess að við kynningarstarf á Íslandi og íslenskri ferðaþjónustu verði horft til þess vöruþróunarstarfs sem er í gangi hér á landi og það kynnt rækilega þannig að þetta hangi saman, sú vinna sem á sér stað hér innan lands og líka það sem kynnt er út á við og öfugt. Þannig skili t.d. Íslandsstofa, sem er í kynningarstarfi á Íslandi út á við og er að kanna markaði erlendis, eftirspurninni hingað inn til þeirra sem starfa að vöruþróun þannig að úr verði eðlileg samfella. Markmiðið er að leitað verði nýrra leiða í kynningarmálum og settir mælikvarðar á árangur. Iðnaðaðarráðuneytið er þegar á þeirri braut með skýrum áherslum í nýjum fimm ára samningi sem það hefur gert við Íslandsstofu.

Jafnframt hafa verið skilgreind fjögur leiðarljós sem liggja skulu til grundvallar aðkomu hins opinbera að ferðaþjónustunni á næstu árum, en þau eru gæði, fagmennska, samvinna og umhverfisvitund. Til að þetta náist þarf stuðningsumhverfi atvinnugreinarinnar að vera sambærilegt því sem gerist í öðrum atvinnuvegum á Íslandi og aðgengi að fjármagni sambærilegt.

Aðgerðaáætlunin í þingsályktunartillögunni er í 13 tímasettum liðum. Auk aðgerða sem þegar hafa verið nefndar er m.a. fjallað um aukið gegnsæi leyfisskráninga, gæða- og umhverfisvottunarkerfi, aukið aðgengi að fé til rannsókna og stóraukið samstarf stofnana í þágu vöruþróunar. Það er gaman að segja frá því að við erum nú þegar að byrja að losa aðeins upp múrana á milli stofnananna á vegum iðnaðarráðuneytisins. Eitt verkefnið sem verið er að vinna að, undir forustu Ferðamálastofu, er verkefni á sviði vöruþróunar í vetrarferðamennsku. Í þeirri vinnu koma stofnanir iðnaðarráðuneytisins fram sem einn maður gagnvart ferðaþjónustunni þar sem settur hefur verið á laggirnar sameiginlegur vinnuhópur. Þar með erum við að stíga skref í þá átt að brjóta niður þá múra sem verið hafa á milli stofnana okkar þannig að nýta megi alla sem best. Þannig kemur Byggðastofnun að verkefninu og þannig kemur Nýsköpunarmiðstöð að verkefninu sem leitt er af Ferðamálastofu. Fleiri verkefni af þessu tagi erum við líka með í gangi þar sem unnið er þvert á allar stofnanirnar vegna þess að oft eru starfskraftar og sérfræðiþekking vannýtt í systurstofnunum þeirra sem hafa þó með verkefnið að gera. En virðulegi forseti, þetta var annar útúrdúr: Það er bara svo gaman að segja frá því sem við erum að gera í stofnanakerfinu í iðnaðarráðuneytinu.

Við gerð ferðamálaáætlunar 2011–2020 var stuðst við ýmis fyrirliggjandi gögn en megináherslur voru mótaðar á grunni fjölda viðtala við einstaklinga í ferðaþjónustu og í stoðkerfinu. Einnig var rætt við fjölda kjörinna fulltrúa og fulltrúa hagsmunahópa. Í þeim viðtölum birtust að stórum hluta sömu áherslur og endurspeglast í þessari þingsályktunartillögu. Ferðamálaráð var bakhjarl þessarar vinnu en þar koma saman fulltrúar allra helstu hagsmunaaðila. En í stýrihópnum sátu ferðamálastjóri, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, formaður Ferðamálaráðs og skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneytinu. Þannig að margir hafa komið að þessu verki. Ég held að við séum komin með býsna skýra og vel skilgreinda áætlun í þessu plaggi.

Ferðaþjónustan en ein helsta atvinnugrein okkar. Til að tryggja sjálfbæran vöxt hennar er nauðsynlegt að aðkoma hins opinbera sé eins skýr og skilgreind og hægt er með alla heildarhagsmuni í huga. Við þurfum fá, skýr markmið byggð á ríkri samvinnu opinberra aðila og einkaaðila.

Ég legg til að þessari þingsályktunartillögu um ferðamálaáætlun fyrir árin 2011–2020 verði vísað til iðnaðarnefndar (Forseti hringir.) og síðan til síðari umræðu.