139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á þingsályktunartillögunni og ágæta ræðu. Hæstv. ráðherra endaði á að segja að aðkoma hins opinbera ætti að vera skýr og skilmerkileg. Ég get að mörgu leyti tekið undir það.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um skoðanir hennar á því að jafna hugsanlega samkeppnisstöðu aðila í ferðaþjónustunni. Þá kemur fyrst upp í huga mér vegagerð, t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum sem sitja algjörlega eftir í þeim málum. Þar af leiðandi er miklu erfiðara að byggja upp ferðaþjónustu á þeim svæðum. Til viðbótar er raforkuverð þar hátt. Þar er ekki heitt vatn þannig að þeir aðilar þurfa að kynda með þrisvar sinnum meiri kostnaði en aðrir. Ég hefði frekar viljað sjá menn jafna samkeppnisaðstöðu fyrirtækjanna á þeim grunni að gera þessa hluti frekar en að fara í eitthvert styrkjakerfi.

Ég gæti líka nefnt Uxahryggjaleiðina. Ferðaþjónustan í Borgarfirði hefur talað um það í mörg ár að hún sé meðal þeirra mikilvægu vegarkafla sem þyrfti að bæta. Þess vegna langar mig að kalla eftir því hjá hæstv. ráðherra hvort hún geti tekið undir það að það kæmi til greina að gera það frekar en að búa til eitthvert flókið styrkjakerfi.

Síðan langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra um skoðun hennar á sameiningu Ferðamálastofu og Íslandsstofu. Ég skoðaði þetta mál dálítið í haust og verð að viðurkenna að ég sá ekki þörfina fyrir því að reka tvær stofnanir um sömu verkefni. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort þetta hafi eitthvað verið skoðað. Hver er skoðun hennar á því hvort ekki gæti orðið markvissari og betri nýting á fjármunum ef við værum með einn aðila sem kynnti einmitt ferðamál, hvort sem væri (Forseti hringir.) innan lands eða erlendis?