139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að við séum sammála um að það sé miklu skynsamlegra að fara í, eins og hæstv. ráðherra sagði, að byggja vegina og gera þannig ferðaþjónustufyrirtækin samkeppnisfær. Ég nefndi sérstaklega sunnanverða Vestfirði. Ég get nefnt Hveravelli fyrir norðan, og Uxahryggjaleið sem ég nefndi áðan. Ég teldi miklu skynsamlegra að við færum í svoleiðis aðgerðir til að ferðamennirnir vildu þá koma á þessa staði. Við vitum alveg hvernig útlendingar bregðast við þegar þeir fara á vonda malarvegi. Það er nær að byggja vegina upp frekar en að búa til eitthvert flókið styrkjakerfi og dæla inn í það peningum. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra sé sammála mér í því.

Eins og ég sagði líka áðan þyrfti að skoða raforkuverðið. Þetta er klárlega farið að standa mönnum sem eru í atvinnurekstri úti á landsbyggðinni fyrir þrifum þar sem er kynt með rafmagni. Það er ekki notað nema á 10% hluta landsins en nú hefur það bitið svo í skottið á mönnum að þessi fyrirtæki eru ekki samkeppnishæf, hvort sem er í ferðaþjónustu, byggingariðnaði eða hverju sem er.

Síðast en ekki síst langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki áhyggjur af þessari auknu skattheimtu á bensín og olíu sem hefur farið núna fram úr öllu hófi. Það er alltaf verið að hækka þetta eins og við þekkjum. Við sjáum verðið í dag, það er komið upp í 230 kr. á lítrann. Það sem er talað um í þessari þingsályktunartillögu er ágætt í sjálfu sér, að stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið, en mér sýnist einboðið að þetta muni bitna á þeim sem búa fjærst. Fólk fer frekar að keyra styttri vegalengdir, það hefur ekki efni á að fara í langar ferðir því að það kostar enga smáfjármuni að keyra nokkur hundruð eða þúsund kílómetra. Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að fjöldinn muni safnast saman þar sem massinn er, bæði þar sem ferðafólkið kemur til landsins og þar sem flest fólkið býr á suðvesturhorninu? Ríkisstjórnin hefur tekið upp á að draga úr ferðum til hinna strjálbýlu svæða úti á landsbyggðinni með mikilli skattheimtu.