139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:20]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir alltaf vænt um að heyra þegar ég er kölluð ferðamálaráðherra vegna þess að mér þykir afar vænt um þá grein. Þar sé ég mikinn vöxt og við öll, við sjáum þar mikinn vöxt og mikil tækifæri.

Framkvæmdasjóður ferðaþjónustunnar sem núna er hjá iðnaðarnefnd til umfjöllunar eða frumvarp þar að lútandi er liður í því að ráðast í miklu hraðari uppbyggingu á nýjum áfangastöðum og í mannvirkjagerð á þeim áfangastöðum sem nú þegar eru fjölsóttir. Þetta er auðvitað gert til að mæta auknum fjölda ferðamanna. Í tölunum sem við styðjumst oftast við eru skemmtiferðaskipin ekki talin með, þau eru alltaf tekin sér. Með þeim koma 70 þúsund manns árlega. Þess vegna þurfum við að huga að því að styrkja líka þá ferðamannastaði sem þegar eru fjölsóttir. Þegar spurt er hvað við séum að gera tel ég að þessi sjóður eigi eftir að verða lykillinn að því að við getum á næstu árum ráðist í mjög hraða uppbyggingu.

Varðandi flugið er ég þeirrar gerðar að ég held ekki að það sé okkar stjórnmálamanna, stjórnsýslunnar, ríkisvaldsins eða annarra að ákveða hver eigi að fljúga hvert. Við eigum hins vegar að styðja við vöruþróunina sem býr til aðdráttaraflið þannig að flugfélögin sjái sér meiri hag í því að fljúga annað en þau hafa gert hingað til. Það er akkúrat verkefnið sem við erum í. Undirliggjandi í öllu því sem fram undan er er að dreifa ferðamönnum betur um landið og enn betur yfir árið. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, vissulega koma fleiri ferðamenn utan háannatíma. Háannatíminn er bara svo stuttur og hinn tíminn er svo langur. Þess vegna eru sóknarfærin sá tími sem er utan svokallaðs háannatíma og inn á þann tíma viljum við fá fleiri ferðamenn. (Forseti hringir.) Tækifærin eru mýmörg út um allt land. Þeirri vinnu erum við í á fullum krafti.