139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

rannsókn á stöðu heimilanna.

314. mál
[18:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa lagt fram þetta frumvarp og tek undir mikilvægi þess sem hann flutti í ræðu sinni, það er mjög mikilvægt að við fáum upplýsingar um stöðu heimilanna núna til þess að geta brugðist við vandanum. Það er ekki nóg að safna þeim eftir eitt, tvö, þrjú ár.

Ég hjó sérstaklega eftir því að hv. þingmaður sem á sæti í efnahags- og skattanefnd upplýsti hér að frumvarp ríkisstjórnarinnar sem var lagt fram um miðjan nóvember er enn þá fast þar inni, án umfjöllunar ef ég hef tekið rétt eftir. Það hefur ekki verið fjallað um það á undanförnum fundum og nú eru liðnir fjórir mánuðir. Ég er mjög hugsi yfir því ef ríkisstjórnin sem kennir sig við velferð, eins og hv. þingmaður sagði, og vill leggja sig fram um að greina vanda heimilanna til að geta brugðist við honum — öðruvísi getur hún ekki brugðist við honum, það eru alveg hreinar línur með það — lætur frumvarpið bara liggja fast í efnahags- og skattanefnd. Ég spyr hv. þingmann: Hvernig stendur á því að þetta er svona? Er mönnum þá engin alvara með því að ætla að greina vanda heimilanna? Eða hvers vegna eru þessi vinnubrögð? Ég skil þau ekki alveg vegna þess að umsagnarferlið ætti að vera löngu liðið og menn gætu þá tekið málið til umfjöllunar.

Ég tók líka eftir því sem hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni þar sem hann lýsti því hvernig menn gætu safnað saman upplýsingum. Hann færði mjög sterk rök fyrir því hvernig mætti hafa upplýsingaöflunina þannig að upplýsingarnar færu ekki fyrir augu almennings, þ.e. yrðu dulkóðaðar og þrjá lykla þyrfti til að rjúfa dulkóðunina. Ég hef hitt margt fólk sem er að fara í skuldaaðlögun og greiðsluaðlögun og það kvartar mjög mikið yfir því að þetta sé tímafrekt ferli, m.a. vegna þess að kallað er eftir margvíslegum upplýsingum sem, ef ég skil hv. þingmann rétt, væru bara klárar ef þetta frumvarp yrði að lögum. Þá væri ekkert flókið að bregðast við vanda einstakra heimila ef það væri rétt. Hver er skoðun hans á því?