139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mín skoðun er sú að ef íslenska þjóðin hafnar Icesave-samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu endurheimtum við stöðu okkar á meðal þjóða sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Nú hefur Moody's gefið út tilkynningu um lánshæfismat íslenska ríkisins ef þjóðin hafnar samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru svartar spár að venju því að sumir aðilar taka þátt í hótunum með ríkisstjórninni, erlendir sem innlendir, en það skrýtna við þessa skoðun Moody's er að svo ótal margir aðrir þættir hafa áhrif á matið.

Sem dæmi má nefna að í fyrsta lagi segja þeir að forsendur um gengisþróun og endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans kunni að reynast bjartsýnar eða svartsýnar. Í öðru lagi er það nefnt að niðurstöður í ýmsum dómsmálum sem nú standa yfir kunni að hafa neikvæð áhrif á stöðu íslenska ríkisins og einkageirans. Í þriðja lagi er bent á að afnám gjaldeyrishafta kunni að flækjast vegna áhrifa á gengisþróun og fjármögnun ríkisins og einkageirans. Þarna er dregin fram þessi þjóðaratkvæðagreiðsla, að nei frá íslensku þjóðinni skapi þá hættu að landið lendi í ruslflokki.

Ég bendi á þær gleðilegu fréttir sem ég fór yfir í ræðu í gær að verslunarkeðjan Iceland er meginuppistaðan í þrotabúi Landsbankans sem á að greiða upp Icesave. Það kemur fram í fréttum í dag að það eigi að greiða út tæpa 63 milljarða og fara tveir þriðju hlutar upphæðarinnar inn í þrotabú Landsbankans og þá til lækkunar á Icesave. Úr því að verslunarsamstæðan gengur svona vel er rétt að slitastjórnin kaupi sér greiðslufallstryggingu til (Forseti hringir.) að við Íslendingar þurfum ekki að fást við það að ábyrgjast skuldir óreiðumanna. Ríkisstjórnin verður (Forseti hringir.) því að svara þjóðinni spurningunni: Er ekki óþarfi að fara nú af stað með frumvarpið sem liggur fyrir, og liggur fyrir þjóðinni, vegna þess að horfur eru svona góðar?