139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við höfum á liðnum dögum rætt talsvert um pólitík í víðu samhengi. Menn hafa rifjað upp orð hver annars síðustu 10 og 20 árin og það gerist þá oft þannig að þegar menn hafa skipt um stjórnarstóla eða eru hættir í stjórnarandstöðu og komnir í stjórnarstóla skipta þeir gjarnan um skoðun líka.

Við höfum m.a. tekið heila skýrslu í að fjalla um umræðuhefð, hvað við eigum að læra af fortíðinni og höfum dregið saman ýmislegt úr fortíðinni og reynt að segja að við eigum að draga af því einhvern lærdóm.

Ég held því fram fullum fetum að á árum áður hafi verið algengara að stjórnarandstaðan hafi verið full af upphrópunum og hávaðamerkjum yfir hinu og þessu, mun meira en til að mynda stjórnarandstaðan í dag. Ég held að málefnaleg umræða sé jafnvel meiri en maður sá oft á árum áður. Kannski er það svolítið af stráksskap sem mig langar að benda þingheimi á að fyrir nokkrum dögum voru fréttir af íslensku flugfélagi sem flaug með hergögn milli landa, m.a. til Afganistans, til stríðsátakanna þar. Þetta gerðist með leyfi núverandi innanríkisráðherra. Þetta kom fyrir fyrir nokkrum árum og þá var þvílíkur hávaði í þinginu og fjölmiðlum sem maður gat lesið um, átakanlegur hávaði (Gripið fram í.) sem var svolítið sérstakt á að hlýða. Það er (Forseti hringir.) gott að rifja það upp að menn lenda gjarnan í stjórnarstólum og ættu kannski að hugsa aðeins um hvað þeir segja í stjórnarandstöðu. Það gerum við. [Kliður í þingsal.]