139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað til að ræða þau mál er lúta að þjóðaratkvæðagreiðslum. Mér þykir eins og hv. þm. Margréti Tryggvadóttur og Birgi Ármannssyni og fleiri þingmönnum einsýnt að það þurfi að fara í þessi verkefni fljótt og vel. Hvort heldur er á sviði hv. allsherjarnefndar eða stjórnlagaþings er mjög mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem er í þessu máli og leita ráða hjá þeim sem gerst þekkja til þessara mála, jafnvel til sérfræðinga í útlöndum sem þekkja til þjóðaratkvæðagreiðslna og þeirra reglna sem lúta að þeim. Við getum horft til ríkja eins og Sviss sem er alvant því að beita þjóðaratkvæði í ýmsum málum. Hér þarf að taka af skarið hvað varðar undirskriftalista og eyða þeirri óvissu og grunsemdum sem ríkja gagnvart þeim undirskriftalistum sem lúta ekki neinum sérstökum reglum í þjóðfélagi okkar nú um stundir. Þetta þarf að mínu viti að gera fljótt og vel og ég hvet viðeigandi nefnd þingsins til að taka af skarið og taka upp hjá sjálfri sér að hefja vinnu í þessa veru. Það er mjög mikilvægt að þeirri lýðræðisvakningu sem hefur orðið í samfélaginu á síðustu mánuðum og árum verði svarað með þessum hætti af hálfu þingsins.

Ég vil jafnframt geta þess vegna þeirrar umræðu sem fór fram um 26. gr. stjórnarskrárinnar í gær á þingi að ég tel líka einsýnt að þær túlkunarheimildir sem forseti Íslands hefur í þeim efnum þurfi að skýra. Það þarf að taka af skarið í þeim efnum, það getur ekki dugað að nota ein rök í dag (Forseti hringir.) og önnur á morgun innan þeirra heimilda sem forsetinn hefur þar.