139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

þjóðaratkvæðagreiðslur – lánshæfismat ríkisins – bætt stjórnsýsla o.fl.

[14:16]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka til máls í framhaldi af ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur þar sem hún nefndi réttilega að við ættum sem þing að læra af niðurstöðum rannsóknarskýrslunnar og þingmannanefndarinnar sem vann úr gögnum rannsóknarnefndar Alþingis. Ég tek undir það.

Það sem hún gerði að umtalsefni var sameining tveggja stofnana sem er núna í vinnslu á Alþingi, en frumvarp þess efnis er í heilbrigðisnefnd, og þá ber þess að geta að sameining umræddra stofnana er vegna ákveðins frumkvæðis frá báðum þeim stofnunum. Það er unnið að lagasetningu hér um að þessar tvær stofnanir, landlæknisembættið og Lýðheilsustöð, verði að einni.

Hvað varðar ráðningar starfsmanna er frumvarpið ekki orðið að lögum og að sjálfsögðu verður ekki gengið frá því frumvarpi til þingsins eftir 2. umr. öðruvísi en svo að gefinn verði nægur tími til að ráða starfsfólk og ganga frá ráðningarsamningum með eðlilegum hætti. Það hefur aldrei staðið annað til.

Því miður hefur þetta mál dregist í heilbrigðisnefnd. Vonir stóðu til þess að afgreiða það fyrir jól en af ýmsum ástæðum varð það ekki, það komst ekki hér á dagskrá. Vonandi er það núna á lokasprettinum í nefndinni. Ég bið hv. þingmenn um að fylgjast með því með okkur hvort ekki verði rétt að öllu farið að hvað varðar ráðningar inn í þessa nýju stofnun sem ég vona að (Forseti hringir.) verði okkur öllum til farsældar.