139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

þjóðaratkvæðagreiðslur -- lánshæfismat ríkisins -- bætt stjórnsýsla o.fl.

[14:25]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir að vekja máls á því að hér eru engar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur svo við paufumst áfram í myrkrinu. Síðan það kom upp úr dúrnum að forseti Íslands, sá sem nú situr, telur það embættisskyldu sína að pipra og salta löggjöf þingsins með þjóðaratkvæðagreiðslum, með mismunandi rökum hverju sinni, og skapa þannig pólitíska óvissu í landinu — sem að vísu býr við stöðugt stjórnarfar svo ég mótmæli aðeins hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem kvartar hér undan óstöðugu stjórnarfari. Það er undantekning á Íslandi ef stjórnir sitja ekki út kjörtímabil svo (Gripið fram í.) hér ríkir tiltölulega stöðugt stjórnarfar.

Það sem mig langaði til að nefna er að flestir hér eru sammála um að það þurfi að uppfæra og endurskoða þetta grundvallarrit okkar Íslendinga, stjórnarskrána. Ekki eru allir á eitt sáttir um nákvæmlega hvernig beri að gera það enda er það ágætt, það á að taka dálítinn tíma að endurskoða grundvallarlöggjöf. (Gripið fram í.) Mig langaði til að biðja þingmenn meðan þetta plagg er þó í gildi enn þá að taka sig til og lesa af mikilli alvöru, einkum og sér í lagi í því ástandi sem nú er uppi, 11. gr. núgildandi stjórnarskrár.