139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

þjóðaratkvæðagreiðslur -- lánshæfismat ríkisins -- bætt stjórnsýsla o.fl.

[14:27]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég bendi þeim þingmönnum sem ekki hafa lesið 11. gr. stjórnarskrárinnar á að með þessari ábendingu gerði hv. þm. Þráinn Bertelsson því skóna að þingið ætti að samþykkja það að víkja núverandi forseta lýðveldisins frá. (Gripið fram í.) Ég æta ekki að taka undir þá skoðun hans, heldur andmæla þeim fullyrðingum hv. þingmanns að á Íslandi ríki stöðugt stjórnarfar. Það væri (Gripið fram í.) tilefni til þess, frú forseti, að við ræddum aðeins stöðuna í íslenskum stjórnmálum á Alþingi á breiðum grundvelli og færum yfir þá stjórnmálakreppu sem hér ríkir.

Nú um helgina synjaði forseti Íslands Icesave-lögunum staðfestingar. Þá var ríkisstjórnin gerð afturreka með sama mál í þriðja skipti. (ÓGunn: Þú meinar þingið.) Í öllum siðuðum ríkjum hins vestræna heims hefði ríkisstjórn sem hefði lent í slíku í þriðja skipti (Gripið fram í: Ertu að ráðast …?) séð sóma sinn í því (Gripið fram í: Ertu að ráðast á Bjarna?) að segja af sér. (Gripið fram í: Ertu að ráðast á Bjarna?) (VigH: Rétt.)

Þar við bætist auðvitað að í vikunni á undan voru hæstv. umhverfisráðherra og ríkisstjórnin öll dæmd í Hæstarétti (Gripið fram í: Þú átt að styðja …) fyrir að brjóta (Gripið fram í: Hann er í forustu þíns flokks.) gegn lögum varðandi skipulag í Flóahreppi og í vikunni þar á undan komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að sú ríkisstjórn sem starfar í landinu gæti ekki staðið skammlaust að almennum kosningum í landinu. (VigH: Rétt.)

Þar fyrir utan styður sjávarútvegsráðherra í hæstv. ríkisstjórn ekki stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Það er fullkomið uppnám i sjávarútvegsmálum landsins. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Hæstv. umhverfisráðherra hefur gefið það í skyn að hún ætli að berjast gegn atvinnuuppbyggingu í Helguvík,

(Forseti (ÁRJ): Tíminn er liðinn.)

með öðrum orðum (Forseti hringir.) ríkir algjört stjórnleysi á Íslandi, frú forseti. Það var stundum sagt (Forseti hringir.) að fræðimenn lifðu í fílabeinsturni. (Forseti hringir.) Ég held að hæstv. ríkisstjórn sé stödd þar og sjái ekki út fyrir veggi þess húss.